„Þetta er að mörgu leyti skrýtið, sérstaklega í byrjun," segir Baltasar Kormákur, aðspurður um það hvernig sé fyrir Íslending að leikstýra frægum kvikmyndastjörnum í Hollywood.

Nýjasta mynd hans, Contraband, hefur notið mikilla vinsælda og nú þegar er hafinn undirbúningur að framleiðslu fleiri Hollywood kvikmynda. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Baltasar Kormákur yfir þau fjölmörgu verkefni sem nú eru á hans könnu, mikla möguleika Íslands í kvikmyndagerð og áhrif þess á hagkerfið. Þá svarar hann spurningum um fjárhagslega þætti geirans, sem eru um margt áhugaverðir.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér í heild sinni. Baltasar segir það þó venjast óvenjufljótt að leikstýra þekktum kvikmyndastjörnum.

En það er löng leið úr leiklistarskólanum hér á landi í það að leikstýra Hollywood stjörnum.

„Ég þurfti að mæta á fundi hjá Universal þar sem ég sat í herbergi með 20 jakkafataklæddum mönnum og þurfti að sannfæra þá um að framleiða myndina. Síðan þurfti ég að sannfæra Mark Whalberg um að leika í myndinni,“ segir Baltasar um myndina Contraband.

„Þú þarft að hafa mikið sjálfstraust til að fara í gegnum þetta. Ég þurfti að hitta Denzel. Washington á tveggja tíma fundi um daginn til að sannfæra hann um að taka að sér hlutverk í 2Guns undir minni leikstjórn. Smátt og smátt býr maður sér til orðspor og trúverðugleika. En fyrstu skrefinu eru þung og ekkert gefið í þeim málum."

Það má heyra á Baltasar að hann er með mörg járn í eldinum sem stendur. Því verður ekki hjá því komast að spyrja hvort hann nái að sinna þessu öllu vel?

„Þetta kemur í skömmtum en þegar ég síðan dett inn í tökur þá er ég bara í því og sinni ekki öðrum á meðan," segir Baltasar. Þá segist hann líka eiga auðvelt að kúpla sig út eins og sagt er.

Hlutirnir virðast gerast hratt í þessum geira, missir þú ekkert af einhverjum tækifærum ef þú kúplar þig út eða ert fastur í ákveðnu verkefni?

„Það má ekki líta á það þannig. Raunin er sú að það er alltaf nóg að verkefnum sem koma upp næst þegar þú kemur upp úr holunni. Ég hef ekki áhyggjur af því að missa af stórum verkefnum í framtíðinni," segir Baltasar að lokum.

Nánar er rætt við Baltasar Kormák í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.