Þegar Baltasar Kormákur er spurður að því hvort að íslendingar hafi hæfileika og þekkingu til að búa til „alvöru“ kvikmyndir er svar hans stutt og laggott; Já, engin spurning.

Hann bætir því þó við að það skorti í raun ekki hæfileika en það vantar þó fleiri tækifæri og reynslu sem hvoru tveggja kemur með aðgangi að auknu fjármagni.

„Það er nægur mannskapur fyrir hendi með mikinn áhuga. Við höfum færi á að fá fólk hingað til að kenna mönnum og reynslan er fljót að koma með auknum verkefnum. Tökuliðin hér á landi eru ekkert síðri en það sem gerist í Bandaríkjunum,“ segir Baltasar í viðtali við Viðskiptablaðið.

Í viðtalinu kemur m.a. fram að áhrif kvikmyndaiðnaðarins geta verið gífurleg á íslenskt hagkerfi. Baltasar bendir einnig á að mikil tækifæri felist í því að nýta íslenskt landslag við kvikmyndagerð.

„Það er hægt að vinna góða kvikmynd án þess að ganga á náttúruna, jafnvel þó að menn séu að vinna með stóran hóp af fólki og mikið af vélum,“ segir Baltasar og nefnir sem dæmi kvikmyndina Flags of our Fathers sem var tekin upp í fjörunni við Straumsvík í leikstjórn Clint Eastwood.

„Eftir að tökum lauk á Flags of our Fathers fundu menn einn kóktappa í fjörunni. Það þarf ekki að eyðileggja náttúruperlur eða landsvæði. Þetta er hinn fullkomni iðnaður. Landslagið á Íslandi er mikil og ónýtt auðlind hvað þetta varðar. Landslagið hér er svo fjölbreytt, fyrir utan jöklana og hraunið má t.d. nefna suðurlandsundirlendið sem menn geta látið líta út eins og Texas á skjánum. Þess utan er þessi iðnaður bráðskemmtilegur. Það er mikil stemning í kringum kvikmyndaframleiðslu, mikið af ungu fólki með stóra drauma.“

Nánar er rætt við Baltasar Kormák í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.