Eins og fram hefur komið hafa tekjur af Contraband, í leikstjórn Baltasar Kormáks, farið langt fram úr væntingum. Eðli málsins samkvæmt situr Baltasar ekki einn að þeim hagnaði en hann er ófeiminn að viðurkenna fyrir blaðamanni Viðskiptablaðsins að sjálfur hagnast hann vel ef myndirnar ganga vel en þó fari mest af því fjármagni inn í framleiðslufyrirtæki hans.

„Mér hefur aldrei dottið í hug að troða þessu undir koddann minn,“ segir Baltasar í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Peningar eru afl sem þarf að virkja. Það liggja núna fyrir fjölmörg spennandi verkefni sem munu kalla eftir fjármagni. Við erum að undirbúa stofnun framleiðslufyrirtækis á sjónvarpsþáttum. Þá eru margar kvikmyndir sem bíða þess að vera framleiddar. Allt kostar þetta mikla peninga og ég mun halda áfram að fjárfesta í þessum iðnaði.“

Baltasar Kormákur er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. Nú þegar er hafinn undirbúningur að framleiðslu fleiri Hollywood kvikmynda. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Baltasar Kormákur yfir þau fjölmörgu verkefni sem nú eru á hans könnu, mikla möguleika Íslands í kvikmyndagerð og áhrif þess á hagkerfið. Þá svarar hann spurningum um fjárhagslega þætti geirans, sem eru um margt áhugaverðir.

Þú nefndir [á öðrum stað í viðtalinu] að ytri aðstæður hefðu ekki verið lykillinn að velgengni þinni á þessu sviði. Þar ertu væntanlega að vísa til auðæfa eiginkonu þinnar, Lilju Pálmadóttur?

„Já, það eru margir sem halda að hún hafi fjármagnað verkefnin mín. Það er svo sem eðlilegt að menn velti því upp en sannleikurinn er sá að ég hef unnið látlaust að þessu síðan ég útskrifaðist úr leiklistarskóla. Lilja hefur aldrei sett fjármagn í myndirnar mínar. Sem betur fer hafa flestar myndirnar mínar gengið vel og skilað ágóða. Við stofnuðum hinsvegar Blueeyes saman í byrjun en breyttum því síðar meir og fyrirtækið er nú að fullu í minni eigu.“

Blueeyes er framleiðslufyrirtæki í eigu Baltasar Kormáks eins og fram kemur. Lilja rekur tamninga- og ræktunarbú í Skagafirðinum en þau hjónin hafa um árabil búið á Hofi á Höfðaströnd.

Nánar er rætt við Baltasar Kormák í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.