Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, heimsótti Hörpu síðdegis í gær ásamt fylgdarliði sínu. Heimsóknin var tengd heimsókn hans hingað til lands en hann fundaði m.a. með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra og Ólafi Ragnar Grímssyni, forseta Íslands. Fram kemur í tilkynningu að Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, sagði aðalritaranum frá sögu hússins og kynnti hann helstu kosti þess.  Ban Ki-moon hlýddi líka á tónlist í Eldborgarsalnum, í Norðurljósasalnum var Óperukórinn að æfa og í Silfurbergi var nýlokið stórri ráðstefnu..

Að endingu fór sendinefndin í nýju salina, Björtuloft, þar sem er vítt útsýni yfir borgina.

Þá segir í tilkynningunni að Ban Ki-moon lét í ljós mikla hrifningu með Hörpu, bæði að lokið skyldi við bygginguna í miðri kreppu svo og hvað nýtingarmöguleikar hennar væru fjölbreyttir. Var meðal annars rætt um hvort Sameinuðu þjóðirnar gætu nýtt húsið til ráðstefnuhalds. Ban Ki-moon heillaðist sérstaklega af Eldborg, þar sem Þóra Einarsdóttir og Steinunn Birna Ragnarsdóttir fluttu honum tvívegis Draumaland Sigfúsar Einarssonar, við gerólíka hljómburðarstillingu.