© AFP (AFP)

Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, heimsækir  Ísland 2.-3.júlí næstkomandi í boði Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra og munu þeir funda í upphafi heimsóknarinnar. Hann mun ennfremur eiga fund með forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, sækja Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra heim í forsætisráðherrabústaðinn á Þingvöllum og heimsækja Alþingi. Aðalframkvæmdastjóri SÞ sótti Ísland síðast heim þegar Kofi Annan kom hingað árið 1997.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að Ban talar á opnum fyrirlestri í Hátíðarsal Háskóla Íslands 2. júlí undir heitinu: Ísland og Sameinuðu þjóðirnar: Sjálfbær framtíð fyrir alla.

Þá mun hann sömuleiðis kynna sér starfsemi skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og jarðhitanýtingu með heimsókn í Hellisheiðarvirkjun og áhrif loftslagsbreytinga á jökla Íslands.