Ákveðið hefur verið að skipta portúgalska bankanum Banco Espirito Santo (BES) í tvennt, annars vegar í nýjan „góðan“ banka og hins vegar banka þar sem áhættusamari eignir verða geymdar. Nýji bankinn mun hljóta nafnið Novo Banco, að því er segir í frétt BBC og mun fá um 4,9 milljarða evra lán frá portúgalska ríkinu.

Í frétt BBC segir að gert hafi verið ráð fyrir aðgerðum af þessum toga eftir að BES greindi frá því á föstudaginn að 3,6 milljarða evra tap hefði orðið á rekstri bankans á fyrri helmingi ársins.

Frá því að bera fór fyrst á áhyggjum af fjárhagslegu heilbrigði bankans í júnímánuði hefur gengi hlutabréfa hans fallið um ein 89%.

Bankinn, sem er stærsta skráða útlánafyrirtæki Portúgals, verður skráð úr kauphöllinni í dag og munu hluthafar tapa nær öllu sínu.