*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 29. október 2014 08:15

Bandalag háskólamanna styður kjarabaráttu lækna

Stjórn BHM segir mikilvægt að starfsaðstæður og laun heilbrigðisstarfsfólks verði samkeppnishæf við kjör erlendis.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Stjórn Bandalags háskólamanna hefur lýst yfir stuðningi við kjarabaráttu Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands. Segir hún mikilvægt að starfsaðstæður og laun heilbrigðisstarfsfólks, og annarra háskólamenntaðra sérfræðinga á Íslandi, verði samkeppnishæf við kjör sem bjóðist erlendis.

Stjórnin segir að annars séu líkur á frekari atgervisflótta sérfræðinga með tilheyrandi afturför fyrir íslenskt samfélag. Atgervisflóttinn sé samfélaginu dýrkeyptur þar sem fjárfesting í þekkingu fari forgörðum. Jafnframt tapist skatttekjur og undirstöður almannaþjónustu veikist. 

Skorar stjórnin því á stjórnvöld að afstýra slíkri þróun með forgangsröðun í þágu þekkingar á vinnumarkaði.