Til að ræða áhrifin af úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu við ráðamenn og áhrifavalda var Shanker Singham staddur hér á landi, en hann leiðir rannsóknir hugveitunnar Legatum á sviði efnahagsstefnu og framþróunar.

Spurður út í hvaða áhrif úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu muni hafa á Ísland og viðskiptin milli Íslands og Bretlands segir hann það fara eftir því hvernig Bretar meðhöndli útgönguferlið.

„Mjög jákvæð niðurstaða væri ef Bretland næði fríverslunarsamningum við mörg mismunandi lönd, þar með talið góðum tvíhliða samningi við Evrópusambandið.

Í mars setjum við úrsagnarferlið formlega af stað og þá tekur við tveggja ára tímabil þar sem samið verður um úrsögnina og þá höfum við vonandi þegar náð samkomulagi við önnur lönd,“ segir Singham þó hann telji það geta tekið lengri tíma en það að ná fríverslunarsamningi milli Bretlands og ESB.

„En það eru ýmis ráð sem við getum gripið til sem tryggir að úrsögnin verði ekki breskum og evrópskum iðnaði til trafala og ég held það sé mikill vilji á báða bóga að tryggja að svo verði ekki.“
Velmegunarsvæði þjóða með svipaðar áherslur

Eitt af því sem hann segir vera lið í útgönguferlinu sé að semja við aðrar þjóðir sem deili með Bretum vilja til að auka fríverslun í heiminum sem mest.

„Ég held að nú þegar Trump hefur dregið Bandaríkin út úr TPP, sé aukinn hvati til þess að semja við þjóðir sem hafi sömu áherslu og við á frjálsa verslun, samkeppni og eignarrétt um eins konar velmegunarsvæði, sem myndi byrja með Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Singapúr ásamt Bretlandi. Síðar gætum við náð NAFTA-löndunum inn ef mögulegt, sem og löndum eins og Sviss og Íslandi,“ segir Singham.

„Ég held að það sé raunverulegt tækifæri fyrir Ísland að vera með í slíku bandalagi fyrir aukinni velmegun, því þetta væri ekki byggt á landfræðilegum forsendum heldur af löndum með svipaðar áherslur.

Oft virkar ekki að ætla sér að byggja á landafræðinni einni og sér, því oft eru nágrannalönd ekkert endilega með svipaðar hugmyndir.

Sem dæmi þá kom ég mjög mikið að viðræðum Bandaríkjanna um fríverslunarsvæði Ameríkuríkja, sem tengja átti Norður- og Suður-Ameríku, en mörg ríki rómönsku Ameríku vorum með hugmyndir og markmið sem voru mjög ólík þeim sem voru hjá NAFTA-ríkjunum svo ferlið mistókst að lokum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .