Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), telur Bandaríki Evrópu vera óraunhæft markmið og að stjórnarskrá sambandsins fáist ekki samþykkt nema að hún verði einfalt plagg sem innihaldi engar vísanir í sameiginleg þjóðartákn.

Í viðtali við blaðið International Herald Tribune, sem birtist í gær, spáir Barroso að stjórnarskrá sambandsins muni á endanum verða samþykkt. Hann sagði koma vel til greina að einstaka þjóðir gætu hafnað þátttöku í einstaka hlutum samkomulagsins að stjórnarskrárdrögunum en varaði ríkisstjórnir í löndum sem hafa verið tortrygginn gagnvart of djúpum samruna að skortur á vilja til þess að gera málamiðlanir kunni að grafa undan þeim þáttum Evrópusamrunans sem þau telja sig hagnast hvað mest á. Í viðtalinu kemur fram að Barroso notaði orðið "stjórnarskrá" samhliða orðinu "samningur" um væntanleg drög sem eiga meðal annars að einfalda ákvörðunartökuferli innan sambandsins. Hinsvegar sagði hann að ESB þættist ekki vera ríki og myndi ekki verða að slíku í fyrirsjáanlegri framtíð.

Drögin að stjórnarskrá ESB, sem áttu að straumlínulaga ákvörðunartökuferlið og auka getu sambandsins til þess að mæla með einni röddu á vettvangi alþjóðamála, var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi árið 2005. Síðan þá hefur allt verið á huldu með framtíðarskipan sambandsins en flestir eru sammála um að til breytinga þurfi að grípa til þess að það geti starfað með skilvirkari hætti. Margir eru fullir efasemda um að rétt sé að fara þá leið að innleiða stjórnarskrá til þess að ná þeim markmiðum og telja samning, líkt og þann er kenndur er við Maastricht í Hollandi, geti náð fram þeim markmiðum. Þjóðverjar fara nú með forystu innan ESB og hefur Angela Merkel kanslari lagt mikla áherslu á að aðildarríkin komi sér saman um drög að nýjum samningi og að hann verði samþykktur á leiðtogafundi sem fer fram í Brussel 21.-22. júní.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.