Bandaríski seðlabankinn lækkaði vexti í dag um 0,5% og hefur þar með lækkað vexti um samtals 2,25% á síðustu fjórum mánuðum. Eftir lækkunina eru stýrivextir í Bandaríkjunum 3%. Lækkunin í dag kemur átta dögum eftir óvænta 0,75% lækkun bankans.

Í WSJ kemur fram að bankinn rökstyðji lækkunina með því að samdráttur á húsnæðismarkaði fari vaxandi, auk þess sem vinnumarkaður hafi veikst nokkuð. Bandaríska hagkerfið óx aðeins um 0,6% á fjórða ársfjórðungi 2007 eftir 4,9% vöxt á þeim þriðja.