Bandarísk yfirvöld tóku í gær yfir rekstur níu banka vestanhafs en aldrei fyrr hafa jafn margir bankar verið teknir yfir á einum degi að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þá hafa, það sem af er ári, 115 bankar verið teknir yfir að bandarískum yfirvöldum en búast má við því að fleiri bankar verði teknir yfir það sem eftir lifir árs. Meðal þeirra banka sem voru teknir yfir í gær var National Bank í Kaliforníu ríki en það er þá fjórði stærsti bankinn sem tekinn er yfir á þessu ári. Aðrir bankar sem teknir voru yfir í gær eru frekar litlir.

Í allflestum tilvikum uppfylla bankarnir ekki kröfu um eiginfjárhlutfall. Sumir bankar hafa áður fengið undanþágu til að koma sínum málum í lag en svo virðist sem þolinmæði yfirvalda sé á þrotum. Sameiginlegar eigur þeirra níu banka sem teknir voru yfir í gær eru um 18,4 milljarðar Bandaríkjadala og innstæður, sem allar verða fluttar í U.S. Bank, nema um 15,4 milljörðum dala.