Stærstur hluti bandarískra fjármagnseigenda á einhvers konar varasjóð sem þeir geta gripið til komi sú staða upp að þeir verði tekjulausir um tíma. Um 80% aðspurðra segjast eiga varasjóði sem hægt sé að grípa til en hjá flestum þeirra dugir sjóðurinn í minna en hálft ár.

Þetta kemur fram í árlegri skoðanakönnun Gallup á meðal Bandaríkjamanna sem eiga minnst tíu þúsund Bandaríkjadali. Um 40% Bandaríkjamanna uppfyllir þær kröfur.

Þátttakendur í könnun Gallup voru beðnir um að forgangsraða ástæðum þess að þeir fjárfestu eða spöruðu fjármagn með markvissum hætti. Þá kemur í ljós að 40% aðspurðra segist haga forgangi fjárfestinga sinna í þeim tilgangi að byggja upp lífeyrissparnað (eða eftirlaunasjóð eins og það er kallað á góðri íslensku vestanhafs). Um 31% þeirra sem þegar eru sestir í helgan stein segja það einnig helsta forgangsmálið þegar kemur að fjárfestingum.

Næst algengasta ástæðan fyrir sparnaði er að koma sér upp fyrrnefndan varasjóð, en um 24% aðspurðra segja það helsta forgangsmálið.

Um helmingur þeirra sem hafa komið sér upp varasjóð segja þó að hann myndi duga í hálft ár eða minna. Um fjórðungur aðspurðra segir sjóðinn duga í hálft ár og 21% aðspurðra segir sjóðinn duga í þrjá mánuði. Um 18% aðspurðra segja sjóðinn geta dugað í eitt ár áður en viðkomandi lenda í greiðsluerfiðleikum og um 30% segja sjóðinn geta dugað í meira en ár.

Stærsti hluti fjármagnseigenda, sem á annað borð eiga umrædda varasjóði, geyma þá á hefðbundnum bankareikningum eða rúmlega 40%. Um 20% þeirra geyma fjármagnið í peningamarkaðssjóðum (e. money markets), um 15% í hluta- eða skuldabréfum og um 13% á tékkareikning.