Bandaríkin munu ná skuldaþaki sínu þann 17. október næstkomandi og ríkissjóður hefur einungis helming af því sem hann þarf til að greiða skuldir sínar. Þetta segir Jack Lew, fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Samkvæmt frásögn BBC telur Lew að Bandaríkin þurfi að hækka skulaþakið um 30 milljarða bandaríkjadala. „Útgjöld á ákveðnum dögum geta verið allt upp í sextíu milljarðar dala,“ segir hann.

Stjórnvöld annarsvegar og repúblikanar hinsvegar, deila um það hvort hækka eigi skuldaþakið til þess að koma í veg fyrir greiðsluþrot. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að ekki verði samið við repúblikana um hækkun skuldaþaksins ef það þýði að stjórnvöld verði að fallast á hugmyndir repúblikana um niðurskurð.