Tölur um atvinnustig vestanhafs gefa til kynna að ótti manna við að hinn hægi efnahagsbati kynni að vera í rénun eigi ekki við rök að styðjast. Demókratar kættust að vonum og telja þetta til marks um að hin umdeilda efnahagsstefna Baracks Obama Bandaríkjaforseta sé að ná árangri. Í Hvíta húsinu fögnuðu menn með því að tilkynna um endurframboð forsetans í kosningunum á næsta ári.

Hér ræðir ekki um bandarískt innanríkismál einvörðungu. Bandaríkin eru enn helsta aflvél efnahagslífs heimsins, en þegar þar árar vel siglir heimsbyggðin jafnan á eftir. Þegar syrtir í álinn vestra eru áhrifin á önnur ríki heims jafnvel enn afdrifaríkari. Það á alveg sérstaklega við í þessari efnahagslægð, sem er svo samofin fjármálakerfi heimsins, en Bandaríkin eru dýpra sokkin í skuldafen en nokkur dæmi eru um.

Tvíbentar tölur

Engin ástæða er til þess að sýta þessar hagtölur, en þær eru þó ekki uppörvandi að öllu leyti og að sumu leyti fela þær í sér ný og verri viðfangsefni.

Bandaríkin
Bandaríkin
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Störfum vestra fjölgaði um 216.000 í liðnum mánuði, um 0,2%. Um leið lækkaði atvinnuleysið fjórða mánuðinn í röð, að þessu sinni úr 8,9% í 8,8%. Það þykir býsna ör lækkun, ekki síst þegar haft er í huga að hagvöxturinn er á ársgrundvelli ekki nema um 2-3%.

Ein orsökin er sú að vinnuaflið — vinnandi fólk og þeir sem leita að vinnu — hefur einfaldlega ekki vaxið síðan í nóvember 2009. Það vekur mun meiri áhyggjur en minna atvinnuleysi nær að sefa. Og gott betur, því þó það hljómi eins og öfugmæli þá höfðu menn beinlínis vonast eftir auknu atvinnuleysi. Ekki vegna þess að það sé eftirsóknarvert, heldur vegna þess að það hefði verið merki um að atvinnuþátttaka væri að aukast. Hún er hins vegar föst í 64,2% af vinnufæru fólki, sem er minnsta atvinnuþátttaka vestanhafs síðan 1984.

Aðrir hagvísar hreyfast hægar

Þegar tölfræðin er skoðuð nánar dvínar bjartsýnin nokkuð. Þó atvinnurekendur hafi bætt við sig mannskap hefur vinnustundunum ekki fjölgað að sama skapi eða aðeins um ½% á þessum fyrsta ársfjórðungi. Þá hefur framleiðni ekki aukist hætishót. Loks er athyglisvert að kaupgjaldið hefur ekki haldið í við verðbólgu, sem að vísu er aðeins um 2%, en á móti kemur að verðbólguvæntingar eru verulegar, einkum hvað varðar matvæli og eldsneyti.

Þetta er sérstakt áhyggjuefni fyrir þá stjórnmálamenn, sem reisa fyrirætlanir sínar um efnahagsbata að miklu leyti á vonum um aukna neyslu. Þegar launþegar þurfa að verja mun stærri hluta tekna sinna í eldsneyti og mat milli þess sem þeir greiða af skuldum er lítil von til þess að þeir leggist í mikla neyslu að öðru leyti.

Þar er Obama ekki einn á báti. Víða um heim hafa stjórnvöld beinlínis reiknað með því að peningaprentun og önnur töfrabrögð á fjármálamarkaði myndu hrinda af stað einkaneyslu á borð við þá, sem einkenndi bóluhagkerfið. Hún hefur látið á sér standa, enda þorri neytenda illa brenndur og skuldsettur.

Velflestar hagtölur aðrar — t.d. velta á fasteignamarkaði, bílasala, hráefnisinnkaup til iðnaðar — benda til þess að batinn sé löturhægur og hagvöxtur vestra er sjálfsagt aðeins rétt rúm 2%, sem er um helmingi minna en margar hagspár gerðu ráð fyrir. Það er vissulega efnahagsbati, en ekki sá rykkur, sem ótal hagspekingar töldu nánast óhjákvæmilegan.

Villuljós

Í þessum myrkrum öllum má finna ýmis villuljós. Þannig hafa spár um aukinn kraft atvinnulífsins orðið til þess að hækka verð á olíu verulega, en Brent hráolía skaust upp fyrir $120 í vikunni. Það varð aftur öðrum til staðfestingar á því að bandarískt efnahagslíf væri að taka við sér og hlutabréfamarkaðir endurspegluðu það dyggilega, sem aftur stjakaði frekar við olíuverðinu, en hækkanir á því eru ýktari en ella sakir aukinnar óvissu vegna jarðskjálftans í Japan og átaka í arabaheiminum.

Síðustu tölur frá bandaríska seðlabankanum um fjárflæði vestanhafs hafa einnig aukið mönnum dug og þor, því þær gefa til kynna að bankar séu loks farnir að horfa til annars en að losa sjálfa sig úr skuldasnörum. Að þeir séu með öðrum orðum aftur farnir að lána út peninga.

Það hafa fjársoltin fyrirtæki notfært sér eftir nokkurt fjárfestingahlé.

Byggt á bólu

Eru auknar fjárfestingar ekki fín vísbending um að senn vori af krafti í bandarísku atvinnulífi, en það hefur jafnan haft orð á sér fyrir aðlögunarhæfni og að geta hrist af sér samdrátt hraðar en þekkist í öðrum löndum? Guð láti gott á vita, en því miður er sægur frábendinga um að því sé öðru vísi farið.

Þessi ætluðu hraustleikamerki bandarísks atvinnulífs byggjast öðru fremur á stefnu bandarískra stjórnvalda í peningamálum og ríkisfjármálum, sem hefur falist í tryllingslegri aukningu á peningamagni í umferð, bæði með hreinni peningaprentun seðlabankans og yfirgengilegri skuldsetningu hins opinbera. Þeirri peningabólu eru líka takmörk sett.

Vert er að minnast þess að þær sjónhverfingar einskorðast ekki við strendur Bandaríkjanna, en peningadælan í Washington er þegar farin að blása upp bólur í fjarlægum löndum við litla hrifningu. Á sama tíma hefur lækkun Bandaríkjadals áhrif á samkeppnishæfi í milliríkjaverslun og verður aukin heldur til lækkunar hinna tröllauknu erlendu skulda Bandaríkjamanna, sérstaklega í Kína. Peningafurstarnir í Peking eru ekki hressir og hafa gefið til kynna að linni peningaprentun Bandaríkjamanna ekki, sé önnur kreppa, hálfu hryllilegri, óumflýjanleg.

Skuggi ríkisfjármála

Það er því sennilegt að bandaríski seðlabankinn haldi að sér höndum þegar núverandi innspýtingu (QE2) lýkur í sumar. Það mun hafa áhrif á skuldabréfamarkaði víða um heim og gera ríkisfjármál enn örðugari viðureignar, sérstaklega í Evrópu, þar sem menn hafa að mestu fleytt vandanum á undan sér frá 2008.

Ekki síður á það þó við vestra, þar sem vaxtakostnaður er á góðri leið með að sliga fjármál hins opinbera. Í fyrra voru vaxtagreiðslurnar um 414 milljarðar dala, en skuldirnar nema um 9.100 milljörðum og munu hækka um 42% á næstu fjórum árum. Heildarskuldbindingar ríkisins eru margfalt meiri, um 75.000 milljarðar Bandaríkjadala, sem er fimmföld landsframleiðsla.

Það er því hlálegt að fylgjast með fjárlagakarpi í Washington, þar sem krytur um 30 milljarða dala niðurskurð kunna að valda greiðslustöðvun hjá alríkisstjórninni á morgun.

Fréttaskýringin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.