Seðlabanki Bandaríkjanna leggur nú allt kapp á að forða fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum frá hruni en á neyðarfundi sínum í gær tilkynnti seðlabankinn um lækkun vaxta til fjármálafyrirtækja (e. discount rate) um 0,25 prósentustig, úr 3,5% í 3,25%.

Þá hefur bankinn rýmkað reglur um skammtímalán til fyrirtækja og lengt hámarkstíma þeirra í 90 daga. Þetta er í fyrsta skipti í þrjá áratugi sem Seðlabanki Bandaríkjanna grípur til neyðaraðgerða af þessu tagi með svo skömmum fyrirvara og það um helgi, að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en í gær kom bankaráð bankans saman á neyðarfundi og var þá gengið frá fjármögnun bankans vegna kaupa JP Morgan á Bear Stearns.

„Það sem er þó ólíkt núna er að fyrir þrjátíu árum voru menn að eiga við vaxandi verðbólgu,“ hefur Bloomberg eftir David M. Jones, hagfræðing og fyrrverandi starfsmanni bandaríska Seðlabankans. „Í dag eru menn einfaldlega að reyna allt til að koma í veg fyrir hrun markaðarins.“ Hann segir að aðgerðir helgarinnar muni varla róa markaði en til langs tíma litið kunni það að gera hann stöðugri.

Gert ráð fyrir stýrivaxtalækkun á morgun

Á morgun er næsti vaxtaákvörðunardagur bankans og hljóðar meðalspá greiningaraðila upp á lækkun vaxta um 0,5 prósentustig samkvæmt könnun Bloomberg.

Þá reiknar Bloomberg fólgnar líkur á lækkun stýrivaxta út frá verði á valréttarsamningum og framvirkum samningum. Samkvæmt þeim útreikningum eru 20% líkur á 0,50 prósentustiga lækkun, 33% líkur á lækkun um 0,75 prósentustig og 30% fólgnar líkur á lækkun um heilt prósentustig. Þá eru 17% líkur á að vextir verið lækkaðir um meira en eitt prósentustig en engar fólgnar líkur á 0,25 prósentustiga lækkun á morgun. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.