Alríkisyfirvöld Bandaríkjanna hafa bannað rafrettuhylki með mintu- og ávaxtabragði, sem hafa verið vinsæl meðal unglinga þar í landi. Hylki með mentól- og tóbaksbragði verði áfram leyfileg, auk ávaxtabragðs sem afhent er í öðru formi en hylki. BBC greinir frá .

Alex Azar heilbrigðisráðherra segir að með því að beita sér markvisst gegn þeim vörum sem eru vinsælastar meðal barna vilji yfirvöld með aðgerðunum stuðla að jafnvægi í lýðheilsumálum. Ríkisstjórnin legði þó áherslu á að fullorðnir hefðu áfram aðgang að öðrum valkostum en hefðbundnum sígarettum, en á sama tíma yrði að bregðast við auknum fíknivanda unglinga í þessum efnum.

Fjölmörg lönd hafa gripið til takmarkana og banna í tengslum við rafrettur nýverið, þar á meðal Suður-Kórea, Indland, Brasilía, og Kína.

Stærsti bandaríski rafrettuframleiðandinn, Juul, hafði þegar hætt sölu bragðbættu hylkjanna vinsælu. Löggjöfin mun skylda samkeppnisaðila þess til að feta í fótspor þess innan 30 daga.