*

föstudagur, 25. september 2020
Erlent 4. júní 2020 10:40

Bandaríkin banna farþegaflug frá Kína

Kínverskum flugfélögum verður bannað að fljúga til Bandaríkjanna frá og með 16. júní næstkomandi.

Ritstjórn
Hainan Airlines er eitt þeirra flugfélaga sem flugbannið mun ná til.

Bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt bann á farþegaflugi frá Kína frá og með 16. júní næstkomandi. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna sagði bannið vera refsingu á stjórnvöld í Beijing fyrir að neita bandarískum flugfélögum að hefja aftur flug til Kína. BBC segir frá. 

Bann ráðuneytisins nær til fjögurra flugfélaga, Air China, China Eastern Airlines, China Southern Airlines og Hainan Airlines. Flugfélögin höfðu haldið áfram að fljúga milli Kína og Bandaríkjanna á meðan á heimsfaraldrinum stóð en þó af skornum skammti. 

Deilur stórríkjanna tveggja hafa stigmagnast vegna heimsfaraldursins og auknum afskiptum kínverskra stjórnvalda í Hong Kong. Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur verið mjög harðorður gagnvart stjórnvöldum í Kína, á þó eftir að samþykkja ferðabannið. 

Kínverska sendiráðið í Washington hefur ekki tjáð sig um umrætt bann en yfirvöld í Kína höfðu áður sagt að takmarkanirnar á flugsamgöngum væru hluti af aðgerðum til þess að stjórna kórónuveirunni og væru sanngjarnar þar sem þær ná til allra flugfélaga. 

Í janúar voru um 325 vikuleg flug fram og til baka á milli Kína og Bandaríkjanna en vikuleg flug hafa einungis verið um 34 frá lok mars. 

Delta Airlines, sem hafði áætlað að hefja flug til Kína aftur í þessum mánuði, styður aðgerðir Bandarískra stjórnvalda. „Við styðjum aðgerðir Bandarískra stjórnvalda til að framfylgja réttindum okkar og tryggja réttlæti,“ er haft eftir talsmanni Delta.