Bear Stearns ætlar að loka vogunarsjóði í sinni eigu í kjölfar þess að hann tapaði tæplega fjörutíu prósentum af verðmæti sínu á síðasta ári. Tilkynningin um lokun sjóðsins kemur hálfu ári eftir að tveir aðrir sjóðir í eigu fjárfestingarbankans hrundu vegna stöðutöku í fjármálagjörningum með tengsl við bandarísk undirmálslán. Voru þeir sjóðir fyrstu opinberu fórnarlömb hrunsins á markaðnum með slíka gjörninga.

Þeim sem hafa fjárfest í sjóðnum var tilkynnt um lokun hans 20. desember. Í frétt Dow Jones-fréttaveitunnar um endalok sjóðsins, sem heitir Bear Stearns Asset Backed Securities Partners, kemur fram að eignir sjóðsins námu 900 milljónum Bandaríkjadala í ágúst síðastliðnum.

Verðmæti eigna hans nema 500 milljónum dala miðað við tölur frá í nóvember. Eigið fé hans er einungis 90 milljónir en það verður greitt út til þeirra sem lögðu fé í sjóðinn. Fram kemur í tilkynningu um lokun sjóðsins að það sé hald forráðamanna hans að strategían á bak við fjárfestingar hans sé úr sér gengin og því felist hagsmunir fjárfesta í því að hann verði lagður niður.