Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna viðurkenndi í fyrsta skipti í dag að samdráttur sé yfirvofandi í bandarísku efnahagslífi. Í ræðu sinni frammi fyrir viðskiptanefnd Bandaríkjaþings í dag sagði Bernanke að minnkandi neysla, aukið atvinnuleysi og minnkandi umsvif á fasteignamarkaði væru skýr skilaboð um samdrátt í hagkerfinu.

„Nú eru miklar líkur á því að hagvöxtur verði lítill, jafnvel enginn fyrra hluta árs og gera má ráð fyrir því að hann verði jafnvel neikvæður,“ sagði Bernanke.

Þá varði hann aðgerðir Seðlabankans um miðjan mars þegar Seðlabankinn kom að björgum Bear Stearns. „Þeir hefðu lýst yfir gjaldþroti daginn eftir,“ sagði Bernanke.

Þá kom fram í ræðu Bernanke að Seðlabankinn gerði ráð fyrir auknum hagvexti á ný á næsta ári. „Í ljósi núverandi aðstæðna er hins vegar mikil óvissa með þá spá og hún verður því tekin til endurskoðunar,“ sagði Bernanke.

„Erfiðir tímar“

Bernanke sagði bandaríska hagkerfið nú fara í gegnum erfiða tíma. Gert er ráð fyrir aðeins 0,2% hagvexti á fyrsta ársfjórðung en Reuters fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum að hagvöxturinn kunni að verða neikvæður strax á öðrum ársfjórðung.

Þá kom fram í vitnisburði Bernanke að hann teldi lækkanir stýrivaxta jákvæðar og sagði þær myndu hleypa nýju lífi í efnahagskerfið.

Hann sagði verðbólgu enn vera áhyggjuefni þar sem verð fari enn hækkandi og dollarinn sé enn að veikjast. Hann sagðist þó búast við „hóflegri“ verðbólgu út árið.