Eftir sjö áratuga nær stöðuga aukningu á bensínnotkun í Bandaríkjunum er eftirspurn loks tekin að dvína. Sérfræðingar segja að úr þessu fari bensínnotkun minnkandi þannig að árið 2030 muni bandaríkjamenn nota um 20% minna bensín en nú er. Það er þrátt fyrir að ökutækjaflotinn stækki um milljónir bíla.

Greint er frá þessu í The Detroit News og er þar sagt að þessi bensínþyrstasta þjóð í heimi horfi nú fram á minni notkun vegna sparneytnari ökutækja og tilmæla yfirvalda um að fólk aki minna og noti meira af etanóli á bíla sína.

Dabiel Yergin, forstjóri IHS Cambridge Energy Research Assoxiates og Pulitzer verðlaunahafi fyrir að hafa skrifa sögu olíuiðnaðarins, segir að tími vaxtar í bensínframleiðslu sé liðinn vegna breytts hugarfars og pólitískrar stefnu.

„Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem samdráttur verður í eftirspurn á bensíni í sögunni, allavega ekki tímabundinn samdráttur. Ökumenn drógu úr akstri í samdrætti í efnahagslífinu  en juku hann síðan aftur um leið og efnahagskerfið tók við sér. Kreppan mikla nú var líka aðalorsök fyrir skyndilegum samdrætti í eftirspurn á árinu 2008. Samt virðist þetta vera með öðrum hætti nú en áður. Stjórnvöld sem og talsmenn iðnaðarins þar á meðal forstjóri Exxon Mobil segja að eftirspurn eftir bensíni hafi nú náð endanlegu hámarki. Samdráttur hefur verið í eftirspurn í fjögur ár í röð og muni brátt fara niður í sömu eftirspurn og var 2006, jafnvel þó efnahagslífið nái sér að fullu.”