Hlutabréf í Bandaríkjunum lækkuðu annan daginn í röð í dag. Orsakir lækkunarinnar eru flestum kunnar – aukinn ótti fjárfesta við frekari afskrifir vegna fasteignatryggðra skuldabréfavafninga og hækkandi olíuverð.

S&P 500 lækkaði um 0,4% í dag og 3% í vikunni allri. Vísitalan hefur nú lækkað fjórar vikur í röð, sem er lengsta lækkunartímabil hennar frá því í janúar.Í júní lækkaði S&P um 8,7% sem er mesta lækkun frá því á haustmánuðum 2002.

Dow Jones lækkaði um 4,2% í vikunni en 0,4% í dag. Nasdaq lækkaði að sama skapi, um 0,3% í dag og 3,8% í vikunni.

Bloomberg greinir frá því að Dow Jones-vísitalan sé á mörkum þess að ganga inn í það sem kallast bjarnarmarkaður, en þá þarf vísitalan að lækka um 20%. Vísitalan náði sögulegu hámarki sínu í október síðastliðnum, en lækkunin síðan þá nemur 19,9%.