Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gærkvöldi nýja útgáfu af björgunaraðgerðum yfirvalda fyrir fjármálakerfi landsins.

Frumvarpið hefur breyst nokkuð frá því að fulltrúadeildin hafnaði því í byrjun vikunnar. Búið er að bæta við skattafríðindum fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki, svigrúmi í eignarhaldsreglum og fleira í þeim dúr til að liðka til á mörkuðum.

Frumvarpið liggur nú fyrir fulltrúadeildina sem mun taka það fyrir strax í dag og líkast til verður kosið um það á morgun eða mánudag.

Báðir forsetaframbjóðendurnir, þeir Barack Obama og John McCain tóku sér hlé frá kosningabaráttunni og mættu til að kjósa í þinginu. Þeir kusu báðir með frumvarpinu.

Þegar ummæli þingmanna eru skoðuð í fjölmiðlum vestanhafs kemur í ljós að ekkert er gefið með það að frumvarpið fari í gegnum fulltrúadeildina – þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið á því.

Margir þingmenn úr báðum flokkum hafa þegar lýst því yfir að þeir muni ekki samþykkja frumvarpið. Sumir nefna að frumvarpið sé óþarft, markaðir þurfi að fá að jafna sig sjálfir. Aðrir telja það ekki ná nógu langt og vilja sjá umsvif hins opinbera vaxa – að minnsta kosti tímabundið.

Steney Hoyer, leiðtogi Demókrata í fulltrúardeild sagði að ekki væri ljóst hvort fleiri demókratar, sem nú eru í meirihluta, myndu kjósa með frumvarpinu nú en gerðu á mánudag. Hann sagði í viðtali við Retuers fréttastofuna í gærkvöldi að sjálfur vildi hann sjá harðari reglugerðir á fjármálakerfinu og nauðsynlegt væri að þær kæmu fram í frumvarpinu.