Bandaríkjamenn eru nú varaðir við svikahröppum sem reyna að stela ríkisframlagi út á kennitölu fólks sem hyggst nýta sér tilboð í bílakaupum um peninga fyrir drusluna, eða „Cash for Clunkers”. Á vefsíðu blaðsins The Detroit News er varað við sölumönnum sem komið hafa upp sérstökum vefsíðum undir því yfirskini að aðstoða fólk við að skipta gömlu druslunni út fyrir nýjan bíl.

Vísað er til þess að óprúttnir aðilar hafi sett upp eyðublöð á netinu þar sem fólk er platað til að setja inn ýmsar upplýsingar um sjálft sig vegna bílakaupa, þar á meðal kennitölur. Síðan nýta svikahrapparnir kennitölurnar til að véla styrki út úr ríkiskerfinu sem ætlað er til að kaupa nýjan bíl í stað þess gamla. Eftir situr fólk með sárt enni og engan styrk til bílakaupa.

Blaðið bendir fólki einfaldlega á að sniðganga slíkar vefsíður algjörlega. Ef það ætli að kaupa bíl í stað þess gamla, þá eigi það einfaldlega að fara til næsta bílasala velja sér bíl, og láta gömlu drusluna upp í. Bílasalinn eigi síðan að sjá um að fá framlag ríkisins og slá um leið 3.500 til 4.500 dollurum af verði nýja bílsins gegn uppítöku á þeim gamla.

Þá er fólki einnig bent á að hirða úr gamla bílnum allt sem nothæft er eins og varadekk og annað, því bílasalanum sé skylt að senda bílinn í brotajárn og megi alls ekki selja hann aftur. Einnig er fólki ráðlagt að tæma druslurnar af eldsneyti áður en þeim er skilað.

Bendir blaðið líka á að það sé ekki alltaf peninganna virði að skipta gamla bílnum upp í nýjan. Mismunurinn sé oftar en ekki tekinn að láni og slíkt geti verið mun kostnaðarsamara en að keyra gömlu druslunni áfram, jafnvel þótt hún eyði eitthvað meiru af eldsneyti.