Stjórnvöld í Bandaríkjunum sendu nokkra af æðstu embættismönnum sínum til Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að votta látnum forseta landsins, Sheikh Khalifa bin Zayed Al Nahyan, virðingu og eiga viðræður við eftirmann hans. Þetta er talið gott tækifæri fyrir bandarísk stjórnvöld til að efla samskipti ríkjanna sem hafa ekki verið góð undanfarin ár.

Í opinberu bandarísku sendinefndinni voru Kamala Harris varaforseti, Antony Blinken utanríkisráðherra, Lloyd Austin varnarmálaráðherra og William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar (CIA). 

Tilgangurinn með sendinefndinni var ekki einungis að heiðra mikilvægan bandamann Bandaríkjanna heldur að styrkja tvíhliða samband ríkjanna. Sendinefndir á við þessa eru venjulega aðeins sendar til nánaustu bandamanna Bandaríkjanna. Það er því nokkuð ljóst að samsetning sendinefndarinnar eigi að senda ákveðin skilaboð, hefur Bloomberg eftir bandarískum embættismanni.

Boris Johnson og Emmanuel Macron eru á meðal leiðtoga heimsins sem hafa lagt leið sína til Furstadæmanna til að votta samúð sína og hitta nýjan forseta landsins, Sheikh Mohammed bin Zayed Al Nahyan. Þá mun krónprins Sádí Arabíu, Mohammed Bin Salman, einnig vera á leið til nágrannaríkisins.

Sheikh Mohammed er nú í forsvari fyrir fjórða stærsta þjóðarsjóð heims, um 6% af hráolíuforða heimsins og einn best búna her Mið-Austurlanda. Hann er þekkt persóna í Mið-Austurlöndum og hefur nýtt vald sitt til að grípa inn í átök á svæðinu.

Hátt verð á olíu hefur skapað aukinn þrýsting á stjórnvöld í bandaríkjunum að bæta sambandið við löndin á svæðinu sem hefur farið versnandi síðastliðin ár. Bandaríkin segja Mohammed Bin Salman, krónprins Sádí Arabíu, hafa staðið fyrir morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi árið 2018.

Kallað hefur verið eftir því að Persaflóaríkin dæli meiri olíu vegna innrásar Rússlands í Úkraínu sem hefur valdið því að verð á olíu hefur hækkað verulega. Hins vegar hafa ríkin á svæðinu borið fyrir sig OPEC+, sem er bandalag sem olíuríkin við Persaflóann og Rússland eiga meðal annars aðild að, sem takmarki svigrúm þeirra til að auka við framleiðslu.

Þá hafa áform Bandaríkjanna um að gera að nýju kjarnorkusamning við Íran haft áhrif á samband þeirra við stjórnvöld í Sádí Arabíu og Furstadæmunum sem telja samninginn styrkja stöðu bandamanna Írans á svæðinu. Beinast áhyggjurnar þá sérstaklega að uppreisnarmönnum Húta í Jemen sem hafa nýverið gert árásir á nágrannaríkin, Sádí Arabíu og Furstadæmin.