Evrópudómstóllinn ógilti nýlega ákvörðun Framkvæmdastjórnar ESB um að tiltekin fyrirtæki innan Bandaríkjanna væru öruggar hafnir fyrir persónuupplýsingar. Samningurinn um öruggar hafnir var undirritaður af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna árið 2000.

Samningurinn heimilaði flutning á persónuupplýsingum til fyrirtækja í Bandaríkjunum sem veita upplýsingunum fullnægjandi vernd. Skrifað var undir samninginn eftir að það kom í ljós að löggjöf Bandaríkjanna veitti persónuupplýsingum ekki fullnægjandi vernd samkvæmt persónuverndartilskipun Evr­ ópusambandsins.

Grundvallarreglur lýðræðisríkja

Eftir niðurstöðu dómstólsins er samningurinn um öruggar hafnir ógildur. „15 ára gagnaflutningur er í raun gerður óheimill,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. „Fyrirtæki geta þá ekki flutt gögn á grundvelli öruggrar hafnar en þurfa að finna annan rökstuðning fyrir gagnaflutningi til Bandaríkjanna.“ Með öðrum rökstuðningi má nefna svokallaða staðlaða samningsskilmála þar sem fyrirtæki samþykkja að meðhöndla persónuupplýsingarnar á fullnægjandi hátt. Varðandi þá skilmála segir Helga: „Þrátt fyrir það, ef það liggur fyrir að fara á með persónuupplýsingar til landa sem virða ekki grundvallarreglur í lýðræðisríkjum þá í rauninni skiptir samþykki ekki máli því að sá gagnaflutningur veitir ekki fullnægjandi vernd fyrir þá borgara sem um ræðir.“

Ólíkir hagsmunir vegast á

„Það er alveg ljóst að það eru gríð- arlegir hagsmunir undir. Það myndi hafa geigvænleg áhrif fyrir mjög mörg fyrirtæki ef það hefði verið lagt algert bann við þessum gagnaflutningi. Það er því allt kapp lagt á að leysa þessa stöðu. Það eru hafnar viðræð- ur milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, því það er mjög mikilvægt að tryggja að persónuupplýsingar njóti verndar en að sama skapi þá eru þarna gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir starfsumhverfi fyrirtækja. Þannig að ef að lagt hefði verið bann við þessum flutningi þá hefði getað farið ansi illa fyrir mörgum fyrirtækjum. Þó svo að dómurinn liggi fyrir þá er lífið svo sjaldan algerlega svart og hvítt. Jafnvel þótt dómurinn hafi ekki gert ráð fyrir viðbragðstíma gegn dóminum þá bara eðli málsins samkvæmt verður það að vera.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð