Bandarísku fjárfestingabankarnir Godman Sachs og Morgan Stanley hafa fengið samþykki bandaríska seðlabankans um að verða viðskiptabankar eingöngu og munu þeir í kjölfarið snúa sér alfarið frá fjárfestingabankastarfssemi.

Í kjölfarið fara bankarnir undir regluverk seðlabankans sem viðskiptabankar.

Á fréttavef Reuters kemur fram að bandaríski Seðlabankinn mun á næstu misserum veita bönkunum lán gegn veði. Sem viðskiptabankar munu þeir hafa meira svigrúm til að taka við innlánum, auka fjármagn sitt og yfirtaka aðrar minni fjármálastofnanir vestanhafs.

Þó gilda strangari kröfur um rekstur viðskiptabanka og munar þar mest um kröfu um eigin fjármagn að sögn Reuters.

Endalok fjárfestingabankastarfsemi

Greining Glitnir segir í Morgunkorni sínu í morgun að breytingin á starfsemi Goldman og Morgan Stanley marki í raun endalok fjárfestingabankastarfsemi sem sérstaks geira í Bandaríkjunum þar sem einungis lítil verðbréfafyrirtæki verða nú eftir.

Þar með ljúki uppgangi verðbréfafyrirtækja í landinu sem á rætur að rekja til lagasetningar í kjölfar kreppunnar miklu á fjórða áratug síðustu aldar, en sú löggjöf klauf bankastarfsemi í viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi.

Greining Glitnis segir mikla gerjun eiga sér nú stað í fjármálakerfi Bandaríkjanna með stórfelldum inngripum yfirvalda og víst er að landslag fjármálastarfsemi landsins, og raunar hins alþjóðlega fjármálakerfis, mun taka miklum breytingum áður en yfir líkur.