Tilraunir bandarískra stjórnvalda til að koma hjólum bílaiðnaðarins í landinu í gang að nýju með átakinu „dollarar fyrir druslurnar“ (cash for clunkers), hefur einkum orðið erlendum bílaframleiðendum til góða. Þannig varð mikil uppsveifla í sölu á KIA bílum frá Suður-Kóreu sem og bílum frá Hyundai. Hlutdeild erlendra bílaframleiðenda í þessu átaki yfirvalda var um 61,4% af nærri 700.000 nýjum bílum sem seldust.

Samkvæmt frétt The Detroit News jókst salan á Kia bílum um 60% í ágústmánuði og salan á Hyundai bílum jókst um 47%. Skýrist þessi stóraukna sala þessara tegunda af því að flestar gerðir bíla frá þessum framleiðendum hafa fallið undir þau skilyrði sem sett voru fyrir styrk yfirvalda til bílakaupa gegn því að menn skiluðu inn gömlu bensínhákunum. Þannig bauð Hyundai 16 gerðir bíla sem féllu undir skilgreiningu yfirvalda og skilaði það þeim sölu á 49.600 bílum, eða sem svara 7,2% af heildarsölu verkefnisins. Í heild náðu bílaframleiðendur utan Bandaríkjanna eins og fyrr segir um 61,4% af nærri 700.000 bílum sem seldir voru í átaki yfirvalda.