Hlutabréf í flestum fyrirtækjum féllu í Bandaríkjunum í dag, en hlutabréfavísitölur enduðu þrátt fyrir það rétt fyrir ofan núllið. Minniskortaframleiðandinn SanDisk sagði að hækkandi orkuverð hefði slæm áhrif á sölu fyrirtækisins, sem verkaði neikvætt á gengi annarra tæknifyrirtækja.

S&P hækkaði um 0,1%, Dow Jones um 0,3% en Nasdaq lækkaði um 0,5%.

Fjárfestingabankarnir Goldman Sachs, Lehman Brothers og Morgan Stanley leiddu lækkanir fjármálafyrirtækja eftir að Citigroup lækkaði afkomuspá sína fyrir stærstu fyrirtækin á markaði. Olíuframleiðendurnir Exxon Mobil og Chevron hækkuðu skarpt í kjölfar þess að verðið á olíutunnunni fór yfir 127 dollara. Hlutabréf í orkufyrirtækjum hafa aldrei verið jafn verðmæt og í dag.