Nýjar tölur sýna að framleiðsla í Bandaríkjunum í febrúar dróst saman og hefur ekki minnkað jafn hratt í fimm ár.

The Institute for Supply Management's manufacturing vísitalan (ISM), sem mælir framleiðslu í Bandaríkjunum lækkar nú í 48,3 stig úr 50,7 stigum í janúar og hefur ekki verið lægri frá því í apríl 2003.

Miðað er við að fari vísitalan undir 50 stig sé um samdrátt að ræða en uppgang ef hún er yfir 50 stigum.

„Staðreyndir sýna okkur að hagkerfið er að keyra í allavega smá kreppu,“ sagði Scott Anderson, yfirhagfræðngur Wells Fargo bankans en bankinn hafði spáð því að ISM vísitalan færi  í 48 stig. Anderson segir að á meðan olíu- og matvöruverð haldi áfram að hækka muni almenningur smátt og smátt minnka neyslu sína.

Eins og greint var frá fyrr í dag jókst neysluvísitala í janúar en Anderson segir að það megi helst rekja til hækkunar á olíu- og matvöruverði. „Ef það hækkar upp úr öllu valdi er fólk ekki að eyða í mikið annað,“ sagði Anderson.

Pantanir á nýjum vörum lækkuðu úr 49,5 stigum niður í 49,1 stig. Afhending á vörum lækkaði í 50,1 stig niður úr 52,8 stigum.

Vísitala birgðastöðu lækkaði úr 49,1 stigum niður í 45,4 stig. Þar gildi 50 stiga reglan einnig en sé hún undir 50 stigum eru birgjar að ekki að endurnýja birgðastöðu sína.

Almenningur eyðir minna á næstunni

Minnkandi sala á heimilisvörum veldur einnig samdrætti á mörkuðum. „Á meðan fólki finnst það ekki efnað kaupir það ekki nýjan bíl eða sjónvarp,“ hefur Bloomberg fréttaveitan eftir viðmælenda sínum. Einkaneysla telur um tvo þriðju af þjóðarframleiðslu í Bandaríkjunum.

Þá féll sala á bifreiðum framleiddum í Bandaríkjunum um 14% í febrúar. Það er um helmingur allra bíla í landinu. Sölustjóri Ford segir að eftirspurn eftir nýjum bílum sé nú í sögulegu lágmarki.