Það virðist stefna í nokkuð jafna kosningu til fulltrúardeildar Bandaríkjaþings sem fram fer samhliða forsetakosningunum vestanhafs í nóvember.

Í nýrri Gallup könnun þar sem spurt er um val kjósenda til fulltrúardeildar þingsins er lítill munur á stærstu flokkunum. Þannig njóta demókratar um 47% fylgi á meðan repúblikanar njóta 46% fylgi.

Sem kunnugt er fara fram forsetakosningar þann 6. nóvember nk. Sama dag verður kosið um 33 sæti (af 100) í öldungadeild Bandaríkjaþings (e. Senate) en um öll 435 sæti fulltrúardeildar (e. House of Representatives).

Stærstu flokkarnir hafa verið nokkuð jafnir undanfarna mánuði. Í ágúst í fyrra voru demókratar þó með 51% fylgi á meðan repúblikanar voru með 44% fylgi. Undir lok síðasta árs hafði heldur dregið saman með flokkunum þegar fylgið var 49%  - 45%, demókrötum í vil. Í mars sl. mældust flokkanir jafn stórir, báðir með 47% fylgi. Í maí sl. mældust repúblikanar hins vegar með 50% fylgi en demókratar 44% þannig að staðan hafði víxlast frá haustinu áður. Í lok ágúst mældust flokkanir hins vegar aftur jafnir, aftur með 47% fylgi hvor og nú mælast þeir aftur svo að segja jafnir.

Gallup kannanir vestanhafs hafa undanfarin ár gefið góða vísbendingu um niðurstöður kosninga, þá sérstaklega þingkosninga. Það veltur þó helst á kosningaþátttöku hversu nákvæmar skoðanakannanir Gallup reynast.