Matsfyrirtækið Fitch tilkynnti í dag að svo kunni að fara að lánshæfiseinkunnir Bandaríkjanna verði lækkaðar nái þingmenn þar í landi sér ekki saman um að hækka skuldaþak hins opinbera. Bandaríska ríkið er með lánshæfiseinkunnina AAA hjá Fitch. Verði þetta raunin er þetta í annað sinn á tiltölulega stuttum tíma sem skuldastaða Bandaríkjanna og ráðaleysi þingmanna veldur því að einkunnir landsins lækka. Matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði mat sitt á Bandaríkjunum í fyrra. Fitch segir í nýjasta mati sínu um Bandaríkin lánshæfishorfur landsins neikvæðar.

Í umfjöllun AP-fréttastofunnar af málinu segir að þingmenn verði að hækka skuldaþak landsins fyrir 1. mars næstkomandi. Gangi það ekki gæti svo farið að stjórnvöld geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.