Bandarískur tundurspillir, staðsettur í Kyrrahafi í grennd við Hawaí, skaut niður ónýtan njósnahött aðfaranótt fimmtudags sem rak stjórnlaust niður til jarðar og innihélt hættulegt eldsneyti, að því er Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, greindi frá. Njósnahnötturinn var í 247 kílómetra hæð yfir jörðu þegar flugskeytið grandaði hnettinum. Að sögn Pentagon var markmiðið að eyða eldsneytistanki gervihnattarins til að koma í veg fyrir hugsanlegt tjón þegar hann kæmi niður til jarðar. Fjölmiðlar hafa eftir háttsettum embættismanni í Bandaríkjaher að það markmið hafi heppnast.   Öryggis- og varnamálasérfræðingar segja aðgerðir Bandaríkjahers vekja upp spurningar um vopnavæðingu geimsins. Atvikið gæti jafnframt orðið til þess að spilla fyrir nýtilkomnum samskiptum Bandaríkjanna og Kína á sviði hernaðarmála. Rússar og Kínverjar lýstu yfir áhyggjum sínum með eldflaugaskotið í gær, einkum Rússar, sem töldu að það gæti verið notað sem "yfirvarp til þess að færa vígbúnaðarkapphlaupið í geiminn", en Bandaríkjaher nýtur þar mikilla yfirburða fram yfir önnur ríki.   Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins.