Bandarískir innflutningstollar á flugvélar – sem fyrst og fremst hafa áhrif á vélar evrópska framleiðandans Airbus – verða hækkaðir, samkvæmt yfirlýsingu þarlendra yfirvalda.

Ekki var hinsvegar ákveðið að hækka aðra tolla á evrópskar vörur, sem í dag standa í 25%, en einnig hafði verið til skoðunar að hækka.

Málið er nýjasta þróun í deilu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um opinberan stuðning við risana tvo í framleiðslu flugvéla, hið bandaríska Boeing – sem hefur átt erfitt uppdráttar vegna vandræða með 737 MAX vélar þess – og hið evrópska Airbus, sem Bandaríkin hafa gagnrýnt Evrópusambandið fyrir að niðurgreiða.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er í frétt Financial Times um málið sagður hafa beint spjótum sínum í æ meira mæli að Evrópu í tollamálum eftir að vopnahlé náðist í tollastríðinu við Kína, og Bandaríkjaþing lagði blessun sína yfir samkomulag við nágrannaríkin til norðurs og suðurs, Kanada og Mexíkó, um að gera breytingar á fríverslunarsamningi ríkjanna þriggja: NAFTA.

Bandarískir embættismenn hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum af vaxandi vöruskiptajöfnuði við Evrópusambandið, sem hefur vaxið um 22% úr 146 milljörðum dala árið 2016 í 178 milljarða í fyrra.