*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Erlent 20. ágúst 2018 12:57

Bandaríkin hafna tillögu Tyrkja

Ríkisstjórn Donalds Trump hafnaði tillögu tyrkneskra yfirvalda um að tengja lausn bandarísks prests við sekt tyrknesks banka.

Ritstjórn
Donald Trump, forseti bandaríkjanna.
epa

Ríkisstjórn Donalds Trump hefur hafnað tilraunum Tyrklands til að tengja lausn bandarísks prests úr haldi við eftirgjöf gagnvart tyrkneskum banka sem stendur frammi fyrir milljörðum dollara í sektir í Bandaríkjunum.

Bandarísk yfirvöld segja að önnur málefni verði ekki rædd fyrr en Andrew Brunson – bandarískur prestur sem var handtekinn í Tyrklandi fyrir meintan þátt sinn í valdaránstilraun þar í landi sumarið 2016 – verði sleppt úr haldi.

Handtaka Brunson hrundi af stað verstu illdeilum milli NATO-þjóðanna í áratugi, og virði tyrknesku lírunnar hrundi í kjölfarið, en nýjar bandarískar viðskiptaþvinganir gegn Tyrklandi gætu tekið gildi í vikunni ef ekki finnst lausn á málinu.

Ríkin tvö hafa átt í löngum samningaviðræðum vegna himinhárrar sektar Halkbank, eins stærsta lánveitanda Tyrklands, en þeim hefur lítið miðað áfram.