Bankastjóri seðlabankans í Dallas í Bandaríkjunum, Richard W. Fisher, segir að líklegra sé að í Bandaríkjunum verði hægari vöxtur en að þar verði dýpri niðursveifla. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

Líklegast er að Bandaríkin komist hjá „löngu tímabili af neikvæðum hagvexti“, sagði Fisher í viðtali við Bloomberg. Hann sagði einnig að hann heyrði auknar áhyggjur af verðbólgu frá stjórnendum sem hann hefði rætt við og hefðu náð athygli hans.

Fisher hélt ræðu í Texas á föstudag eftir að birtar höfðu verið tölur sem sýndu að Bandaríkin væru að færast nær samdrætti á sama tíma og verðbólga væri farin að aukast. Fisher sagði að hægari vöxtur mundi líklega vara í fáeina (e. couple) fjórðunga og varaði við því að það kunni að verða erfitt að hækka stýrivexti hratt.

Stjórnendur bandaríska seðlabankans gera ráð fyrir 1,3-2 prósenta hagvexti í ár, en hagvöxtur í fyrra er talinn hafa verið 2,5%.