Hækkun varð á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag eftir að markaðir höfðu lækkað tvo daga í röð. Nasdaq hækkaði um 0,72%, Dow Jones um 0,5% og S&P um 0,52%.

Nokkur sveifla var á mörkuðum í dag. Nasdaq lækkaði nokkuð fram undir hádegi á staðartíma en hækkaði aftur eftir hádegi. Um kl. 14:30 byrjaði vísisitalan að lækka aftur en endaði á því að hækka í lok dagsins. Það voru bæði jákvæðar og neikvæðar fréttir sem höfðu áhrif á markaðinn í dag.

Cisco's tilkynnti í dag að þeir myndu auka hlutafé sitt um 10 milljarða dollara og verður það að teljast nokkur innspýting á markaði vestanhafs. Morgan Stanley hækkaði einnig lánshæfismat Hewlett-Packard þannig að þetta var góður dagur fyrir tækni iðnaðinn sem hafði hækkað samanlagt um 1,4% í lok dags.

Sá orðrómur er nú uppi, og ekki í fyrsta sinn, að Microsoft hafi lýst áhuga á því að eignast Yahoo! Inc og við það hækkuðu hlutabréf í Yahoo! um 5% í dag.

Á Bloomberg.com kemur fram að hlutabréf í tæknifyrirtækjum séu í góðum málum þessa dagana og það ástand sem ríkt hefur á bandarískum húsnæðismörkuðum hafi ekki áhrif á fyrrnefndan iðnað.

deCODE tilkynnti í dag að til standi að bjóða almenningi að skoða erfðamengi sitt gegn greiðslu. Þessi möguleiki gerir það að verkum að hægt er að greina erfðaþætti í einstaklingum og reikna út líkindi um algenga sjúkdóma. Við þessar fréttir hækkaði gengi deCODE um 18,81% á Nasdaq. deCoDE er móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar.

FedEx gaf hins vegar út viðvörun vegna afkomu fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi. Hækkandi eldsneytisverð er þar helst kennt um. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um 4,5% við þessar fréttir.

Lítil hreyfing var á fjármálafyrirtækjum í dag en þau hækkuðu um 0,45%.