Hlutabréfamarkaðir sveifluðust nokkuð upp og niður í þær rúmu þrjár klukkustundir sem opið var á Wall Street en markaðir lokuðu fyrr en venjulega (kl. 17 að íslenskum tíma) líkt og venja er daginn fyrir þjóðhátíðardag þar í landi en hann verður haldinn hátíðlegur á morgun, 4. júlí.

Nasdaq lækkaði um 0,3% en Dow Jones hækkaði um 0,7% og S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,1%.

Markaðir hækkuðu strax við opnun í morgun en þegar tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum og stýrivaxtaákvörðun evrópska Seðlabankans bárust fór að halla á hlutabréfamarkaði að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þá gaf minniskubbaframleiðandinn Nvidia út afkomuviðvörun í dag hafði það nokkur áhrif á önnur tölvu- og tæknifyrirtæki, þá sérstaklega þau sem eru innan Nasdaq vísitölunnar en afkomuviðvörun Nvidia þykir að sögn Bloomberg gefa til kynna að önnur félög í sama bransa kunni að endurskoða afkomu sína á öðrum ársfjórðungi. Nvidia lækkaði um rúm 30% í dag.

Olíutunnan fór hins vegar um tíma yfir 145 Bandaríkjadali og við það hækkuðu olíufélögin nokkuð. Chevron hækkaði um 1,2% og Exxon um 1% svo dæmi séu tekin. Við lok markaða kostaði tunnan 144,3 dali.