Bandarísk stjórnvöld undirbúa nú nýjar viðskiptaþvinganir gagnvart alþjóðlegum fyrirtækjum og einstaklingum vegna eldflaugaverkefnis Írans, en frá þessu greinir Reuters.

Wall Street Journal greindi einnig frá því að fyrirhugaðar þvinganir beinist að 12 fyrirtækjum og einstaklingum í Íran, Hong Kong og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en viðkomandi aðilar eru grunaðir um að hafa hjálpað Íran að vinna í eldflaugakerfi.

Í júlí síðastliðnum skrifuðu Bandaríkin og Íran undir tímamótasamning varðandi kjarnorkuframleiðslu þeirra síðarnefndu og í kjölfarið var ýmsum viðskiptaþvingunum aflétt. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur þó rétt samkvæmt samningnum til að beita þvingunum vegna þróunar eldflaugakerfisins, samkvæmt bandarískum stjórnmálamönnum.

Íranskir stjórnmálamenn hafa hins vegar greint frá því að leiðtogi landsins myndi líta á slíkar þvinganir sem brot á kjarnorkusamningnum og því er ljóst að samskipti þjóðanna tveggja gætu aftur farið versnandi.

Menn á vegum Sameinuðu Þjóðanna sögðu í trúnaðarskýrslu sem Reuters komst yfir fyrr í mánuðinum að Emad eldflaug sem Íran prófaði í október síðastliðnum væri megn þess að flytja kjarnaodd. Væri Íran að brjóta samkomulag með notkun slíkra eldflauga.