Bandaríska þingið samþykkti í dag aukin fjárútlát til efnahagsaðstoðar innanlands. Hljóðar aðstoðin upp á 152 milljarða dollara sem samsvarar u.þ.b. 10.260 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í hálffimm fréttum Kaupþings.

Þá kemur einnig fram að strax í maí verði bandarískum heimilum send endurgreiðsla á hluta skattgreiðslna þeirra sem vonast er til að ýti undir þarlent efnahagslíf og greiðslugetu heimila sem mörg hafa farið illa út úr of mikilli skuldsetningu húsnæðis síns.

Einhver formsatriði eru þó enn eftir s.s. samþykkt frá Bush forseta en fastlega er búist við að hann samþykki aðstoðina þar eð hann var einn þeirra sem helst færði rök fyrir nauðsyn hennar.

„Ljóst þykir að efnahagsaðstoð af þessari stærðargráðu mun hafa einhver áhrif þó óvíst sé hve mikil þau verða. Margoft hefur verið talað um samdrátt í bandarísku efnahagslífi og óvíst hvort opinber efnahagsaðstoð til almennings muni bæta ástandið til langs tíma. Hafa einhverjir bent á að slík aðstoð geti gert illt verra þar sem skuldir hins opinbera eru miklar og viðskiptahalli mikill. Því er að mati margra hagfræðinga óvíst hvort þessi aðstoð bæti grundvöll hagkerfisins til langs tíma. Þá má ekki gleyma því að þótt 152 milljarðar dollara séu óneitanlega dágóð upphæð er það aðeins um 6% af áætluðum heildartekjum bandaríska ríkisins árið 2007. Þá má til gamans, þar sem Bandaríkjamenn eru u.þ.b. 1000 sinnum fleiri en Íslendingar, heimfæra þessa upphæð sem svo að íslenska ríkið auki innlenda efnahagsaðstoð sína um 10 milljarða. Tekjur ríkisins árið 2006 voru 422 milljarðar til samanburðar," segir í hálffimm fréttum Kaupþings.