Hlutabréf héldu áfram að lækka í byrjun dags í Bandaríkjunum.

Intel tölvufyrirtækið gaf út verri afkomuspá á fyrsta ársfjórðungi en gert hafði verið ráð fyrir. Fyrirtækið telur að sala muni lækka um einn milljarð bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi sem er 6,9% undir áætlun. Við þessar fréttir lækkuðu bréf í fyrirtækinu um 13% strax við opnum markaða í New York.

Apple tölvurisinn hefur einnig lækkað í dag um 10 bandaríkjadali og er hluturinn nú metinn á 158,81 dali. Fleiri tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki hafa verið að lækka og eru neikvæðar fréttir frá Intel taldar áhrifavaldurinn að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Tækniiðnaðurinn hækkaði nokkuð á síðasta ári og kom hvað best út úr vísitölum en hefur lækkað um 12% það sem af er nýju ári.

Olíuverð fór í fyrsta skipti í fjórar vikur undir 90 bandaríkjadali og við það lækkuðu olíufyrirtæki á borð við Exxon og Chevron en talið er að OPEC muni auka framleiðslu sína á næstunni sem leiðir til lækkunar á olíuverði.

Á hádegi í New York hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 0,80% og S&P 500 um 0,14%. Dow Jones hefur hins vegar hækkað um 0,23%. Hlutabréf voru lægst kl. 11 að staðartíma en svo virðist sem lækkunin sé að minnka.

VB.is mun greina betur frá mörkuðum í Bandaríkjunum eftir lokun í kvöld.