Jólasalan í Bandaríkjunum var nokkuð dræm um helgina en hún hófst formlega eldsnemma á föstudagsmorgun eins og venja er.

Að sögn Reuters fréttastofunnar hafa neytendur vestanhafs áhyggjur af efnahagsástandinu og stíga því varlega til jarðar þegar kemur að því að versla jólagjafir.

Þá segjast margir þeirra vonast eftir betri tilboðum þegar nær dregur jólum.

Eins og fyrr segir hófst jólasalan formlega í fyrradag, föstudag. Iðulega er talað um svarta föstudaginn sem kemur í kjölfar þakkagjörðarhátíðarinnar á fimmtudag.

Nú liggja bráðabirgðatölur fyrir frá verslunum frá því á föstudaginn og er talið að verslunin þann daginn hafi numið 10,6 milljörðum dala. Það er að vísu 3% aukning frá því í fyrr á föstu verðlagi en í fyrra jókst salan um 8,3% milli ára.

Þá segir viðmælandi Reuters að ef ekki hefði verið fyrir gífurlegar útsölur og tilboð hefði salan aldrei náð slíkum hæðum á föstudag.

„Það er því spurning hvort ofurtilboðin séu ekki að skekkja sölutölur,“ segir viðmælandi Reuters sem að sögn fréttastofunnar þekkir vel til mála í smásölu. Hann bætir því þó við að það eigi eftir að koma í ljós síðar.

Orð hans vekja óneitanlega athygli því margir neytendur segjast bíða betri tilboða þegar nær dregur jólum. Viðmælandinn, sem ekki er nafngreindur, tekur fram að margir neytendur hafi fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvað þeir ætli sér að versla og séu að bíða eftir að þær ákveðnu vörur lækki.