*

fimmtudagur, 24. september 2020
Erlent 31. júlí 2020 13:25

Bandaríkin kaupa Sanofi-GSK bóluefni

Bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt samning um 100 milljónir skammta af bóluefni, með möguleika á 500 milljónum til viðbótar.

Ritstjórn
Frá skoðunarferð Emmanuel Macron Frakklandsforseta um rannsóknarstofur Sanofi þann 16. júní síðastliðinn.
epa

Bandarísk stjórnvöld hafa samþykkt að greiða Sanofi og GlaxoSmithKline (GSK) allt að 2,1 milljarði dollara til að flýta þróun Covid-19 bóluefnis. Samningurinn tryggir ríkisstjórninni einnig hundrað milljónir skammta og möguleika á 500 milljónum skammta til viðbótar.

Samningurinn er hluti af ‚Operation Warp Speed‘, ríkisáætluninni, sem vinnur að því að flýta þróunartíma á bóluefni úr áratugi í 12 til 18 mánuði. Þetta er áttundi samningur rannsóknar og þróunarstofnunarinnar BARDA en heildarfjárhæð þeirra nemur nú 8,3 milljörðum dollara eða 1.125 milljörðum íslenskra króna. 

Meirihluti fjármagnsins fer til franska lyfjafyrirtækisins Sanofi sem hannaði tilraunalyfið en fyrirtækið mun nota ónæmisglæði (e. adjuvant) frá GSK sem á að auka skilvirkni bóluefnisins. 

Fyrr í mánuðinum tilkynnti þýska líftæknifyrirtækið BioNTech um sambærilegan 1,95 milljarða dollara samning við bandaríska ríkið sem fól í sér 100 milljónir skammta með ákvæði um að ríkið geti keypt 500 milljónir skammta til viðbótar. 

Að koma með bóluefni á markað hratt veltur á því hvort lyfjafyrirtæki geti skalað upp framleiðslugetu þrátt fyrir að klínískar tilraunir á bóluefninu standi enn yfir. Án stuðnings stjórnvalda myndi iðnaðurinn ekki taka síka áhættu, segir í frétt Financial Times. Þeir samningar sem hafa verið samþykktir tryggja að lyfjafyrirtækjunum verði greitt þrátt fyrir bóluefnin virki ekki.