Hlutdeild Kína í Bitcoin-greftri heimsins féll úr 44% í 0 á tveimur mánuðum og Bandaríkin urðu stærsti vettvangur starfseminnar eftir að kínversk yfirvöld lögðu blátt bann við henni í maí. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá hugveitunni Cambridge centre for alternative finance sem Financial Times segir frá.

Fallið er enn meira frá hápunktinum haustið 2019, þegar þrjú af hverjum fjórum Bitcoinum voru grafin í Kína. Opinbera ástæðan fyrir kínverska banninu voru umhverfis- og fjármálamarkaðasjónarmið.

Á móti jókst hlutdeild Bandaríkjanna í 35% í ágúst úr 17% í apríl, og aðeins 4% haustið 2019, en tölurnar ná aðeins fram til ágústmánaðar síðastliðins. Þá var Kasakstan komið í annað sætið í ágúst með 18% hlutdeild, úr aðeins 8% þegar bannið var lagt á í Kína.

Haft er eftir sérfræðingi í frétt Financial Times að námugreftrarflóttinn frá Kína í kjölfar bannsins hafi aukið mjög landfræðilega dreifingu starfseminnar um heiminn, sem líta megi á sem jákvæða þróun fyrir kerfisöryggi rafmyntarinnar sem sé í samræmi við hugsjónirnar sem að baki henni búa.

Yfirvöld í Peking gengu síðan skrefinu lengra í síðasta mánuði og bönnuðu allt sem tengist rafmyntum. Á sama tíma vinnur kínverska ríkið að útgáfu eigin rafeyris, sem stefnt er að því að sjósetja á vetrarólympíuleikunum í Peking í febrúar næstkomandi.