Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu í dag, en hagvöxtur þar í landi var undir væntingum. Umsóknum um atvinnuleysisbætur fjölgaði og olíuframleiðandinn Exxon Mobil skilaði uppgjöri undir væntingum. Bloomberg segir frá þessu í kvöld.

S&P-500 lækkaði um 1,3% og lækkaði alls um 1% í mánuðinum. Dow Jones lækkaði um 1,8% og Nasdaq um 0,2%.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti að hagvöxtur á síðasta fjórðungi hefði verið 1,9%, og neikvæður vöxtur hefði átt sér stað á síðasta fjórðungi 2007.

Orð fyrrverandi seðlabankastjórans Alan Greenspan virðast ennþá hafa talsverðan slagkraft í umræðunni, en ummæli hans í dag um að húsnæðismarkaðurinn myndi sennilega verða fyrir frekari áföllum höfðu talsvert neikvæð áhrif á stemminguna á markaði.