Markaðir í Bandaríkjunum tóku við sér í dag eftir tveggja daga lækkun. Nasdaq hækkaði um 1,78%, Dow Jones um 1,48% og S&P um 1,52%.

Microsoft, Oracle og Intel leiddu hækkun á tæknifyrirtækjum en Bloomberg.com greinir frá því að eftirspurn eftir tölvum og forritum muni aukast á næstunni líkt og gerst hefur síðustu misseri. Sérfræðingar frá Lehman Brothers mælti með kaupum í Oracle og telur að fyrirtækið verði stöðugt á næstunni. Við þetta hækkuðu bréf í Oracle um 5,9%.

Búist er við miklum hagnaði tölvu- og hugbúnaðarframleiðanda á næsta ári en sala tæknibúnaðar til landa á borð við Braselíu, Rússlands, Indlands og Kína hefur aukist mikið síðustu misseri. Í Standard & Poor's vísitölunni eru 18 tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki og 17 þeirra hækkuðu í dag.

Búist við aðgerðum hins opinbera í húsnæðismálum

Freddie Mac, einn stærsti fjárfestingarbanki Bandaríkjanna hækkaði um 7,3% í dag. Freddie Mac sér um að fjármagna önnur fjármálafyrirtæki sem lána til húsnæðiskaupa. Samningaviðræður hafa átt sér stað á milli hins opinbera og lánafyrirtækja um aðgerðir til fimm ára. Rætt hefur verið um að hið opinbera muni frysta vexti til fimm ára og hvetja fylkisstjórnir til að beita skattaafslætti til að hjálpa einstaklingum að endurfjármagna húsnæðislán sín.

Talið er að George Bush, bandaríkjaforseti muni á morgun ásamt Henry Paulson, fjármálaráðherra tilkynna um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta þeim sem illa hafi komið út úr nýlegum sveiflum á húsnæðismarkaði.

Olíuverð lækkaði um 83 cent í dag og í lok dagsins var verðið á olíutunnu 87,49 bandaríkjadalir. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag ákváðu OPEC ríkin í dag að auka ekki olíuframleiðslu þrátt fyrir mikinn þrýsting.