Töluverð hækkun varð á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq hækkaði um 3,46% og er vísitalan nú 2673,65 stig. Dow Jones hækkaði um 2,46% og Standard & Poor's hækkaði um 2,91%.

Þetta er í fyrsta skipti í fimm daga sem markaðir loka á grænum tölum. WSJ greinir frá því að töluverð jákvæðni hafi ríkt í dag og ef til vill sé þetta byrjunin á góðu gengi markaða.

Wal-Mart kynnti afkomu sína snemma í morgun og hækkaði í kjölfarið um 2,65%. Afkoma Wal-Mart var sú besta frá árinu 2002 og má segja að þessar fréttir hafi leitt markaðinn í hækkun dagsins.

Bank of America tilkynnti í dag um afskriftir upp á 3 milljarða dala vegna slæmra fjárfestinga á húsnæðismarkaði. Von var á þessum fréttum samkvæmt Bloomberg.com og því hafði tilkynning Bank of America engin áhrif á markaðinn heldur þvert á móti hækkuðu bréfin í fyrirtækinu um 2,8%.

Einnig kynnti China Mobile að viðræður væru hafnar við Apple um að selja iPhone í Kína. Við þær fréttir hækkuðu bréf töluvert í Apple eða um 11%. Í fréttatilkynningu frá  Apple segir að það sé stórt skref að koma inn á markað í Kína. Þar séu fleiri notendur að farsímum en allir íbúar Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir neikvæðar fréttir gærdagsins hækkuðu bréf í E*Trade um 40% eftir að hafa fallið um nær 60% í gær.