Eftir að hafa hækkað í gær lækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum aftur í dag. Nasdaq lækkaði um 1,1%, Dow Jones lækkaði um 0,6% og Standard & Poor's lækkaði um 0,7%. Nasdaq hækkaði við opnun í morgun en eftir hádegi fór vísitalan að lækka.

PepsiCo kynnti góðar rekstrarniðurstöður í morgun. Búist er við hagnaði á öllum ársfjórðungum og má reikna með hagnaði upp á 3,35 bandaríkjadali á hvern hlut segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Hlutabréf í fyrirtækinu hækkuðu um 1,5% við þessar fréttir.

Macy's verslunin gaf út tilkynningu um að tekjur fyrirtækisins hefðu lækkað um 0,5% í október. Háu olíuverði og lækkun á verði fasteigna er kennt um minni neyslu Bandaríkjamanna í október. Hlutabréf í Macy's lækkuðu um 7,1% í kjölfarið. Sears, sem er stærsta heildsala með heimilisvörur, lækkaði einnig um 4,2%.

Sameining hjá flugfélögum

WSJ greinir frá því í dag að tvö af þremur stærstu flugfélögum Bandaríkjanna, United og Delta Air eru í viðræðum um hugsanlega sameingu. Frásagnir herma að fyrirtækin sameinist undir merkjum Delta Air og muni hafa aðsetur í Chicago. Hlutabréf í fyrirtækjunum ruku upp við þessar fréttir auk þess sem hlutabréf í American Airlines hækkuðu um 3,3%.