Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum lækkuðu mikið í dag, sem er þriðji dagurinn í röð sem lækkun varð á bandarískum hlutabréfum. Nasdaq lækkaði mest, um 2,5%, Dow Jones lækkaði um 1,7% og S&P 500 um 1,4%.

Tæknifyrirtæki lækkuðu töluvert, en þegar leið á daginn fóru fjármálafyrirtæki að taka við sér eftir miklar lækkanir að undanförnu, að því er fram kemur í WSJ. Lehman Brothers leiddi hækkanir fjármálafyrirtækja með 5,4% hækkun og bankarnir Citigroup, Goldman Sachs og Morgan Stanley hækkuðu allir um tæplega 4%.

Hækkanir fjármálafyrirtækjanna urðu þrátt fyrir að fjórði stærsti banki Bandaríkjanna, Wachovia, tilkynnti í morgun um 1,1 milljarðs dala tap fyrir skatta vegna undirmálslánakrísunnar. Þetta tap bætist við 347 milljóna dala niðurfærslu sem bankinn hafði þegar skýrt frá, en að sögn WSJ hafa aðstæður á undirmálslánamarkaði í Bandaríkjunum haldið áfram að versna. Wachovia hækkaði engu að síður um 0,9% í viðskiptum dagsins.