Lækkun varð á bandarískum mörkuðum í dag, fyrsta virka dag desember mánaðar. Nasdaq lækkaði um 0,90%, Dow Jones lækkaði um 0,43% og Standard& Poor's lækkaði um 0,59%.

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson sagði í morgun að hið opinbera myndi að einhverju leyti koma til móts við þá einstaklinga sem hefðu komið hvað verst út úr erfiðleikum á lánamörkuðum undanfarið. Hann tók þó fram að þetta yrði gert í samráði við fjármálafyrirtæki. Sérfræðingar frá Barclays sögðu að aðgerðir hins opinbera myndu lítil sem engin áhrif hafa á fasteignarmarkaði. Því hafði tilkynning fjármálaráðherrans lítil áhrif á markaðinn.

Það voru fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkun dagsins. Sérfræðingar frá Deutsche Bank gáfu til kynna í morgun að hlutabréf í fjármálafyrirtækjum myndu að einhverju leyti rýrna á næstunni. Morgan Stanley og Merrill Lynch lækkuðu hratt í kjölfarið. Hins vegar hækkuðu flest fyrirtæki sem stunda sölu á byggingarvöru og húsgögnum. Það kom í kjölfar þess að Morgan Stanley tilkynnti um samning sem bankinn hafði gert við Lennar Corp. um kaup á byggingarsvæðum sem til stendur að þróa á næstunni.

Bílaframleiðslufyrirtæki lækkuðu aðeins í dag, General Motors um 1,22% og Ford um 0,26%. Bæði fyrirtækin segja að bílasala sé meiri en í fyrra en nái ekki væntingum.