Markaðir í Bandaríkjunum tóku vel við sér í dag. Opið var fyrir viðskipti til kl. 13 á staðartíma í New York en það er venjan þenna fyrsta dag eftir þakkargjörðarhátíð. Nasdaq hækkaði um 1,34% og stendur vísitalan nú í 2596,6 stigum. Dow Jones hækkaði um 1,42% og Standard & Poor's hækkaði mest í dag eða um 1,69%.

Öll sú hækkun sem hafði orðið á Standar & Poor's vísitölunni á árinu gekk að mestu til baka í síðustu viku en dagurinn í dag skilar henni aftur í plús.

Hátíðarinnkaup hófust í dag og er þessi dagur venjulega kallaður svarti föstudagurinn (e.Black Friday). Fyrirtæki eins og Wal-Mart, Target og JC Penny hækkuðu strax í morgun á sama tíma og búðir þeirra fylltust af fólki út um allt land.

Nokkur spenna hefur ríkt á mörkuðum þessa vikuna og verður hækkun dagsins að teljast jákvæðar fréttir. WSJ greinir frá því að dagurinn í dag losi um ákveðna spennu og viðmælendur blaðsins horfa með bjartsýni til næstu viku.